top of page
natturulogmalin.jpg

Snemma sumars árið 1925 hefur yngsti, fegursti og jafnfram óviljugasti biskup Íslands, herra Jón Hallvarðsson, kallað til prestastefnu á Ísafirði. Megintilgangurinn virðist vera að storka þjóðtrú landans og sýna mátt kristindómsins frammi fyrir hindurvitnum, spíritisma og náttúruöflum. En með uppátæki sínu hleypir biskup af stað ófyrirsjáanlegri sjö daga atburðarás þar sem náttúra staðarins kallast á við náttúru mannsins.

 

Náttúrulögmálin er skáldsaga sem gefur einstaka og karnivalíska mynd af kaupstaðarlífi Ísafjarðar á miklum umbreytingartímum í sögu þjóðarinnar og heimsbyggðarinnar allrar. Hér er brugðið á leik með heimildir og sögulegar staðreyndir í hrífandi og bráðskemmtilegri sögu.

 

Einlægur Önd.png

Eiríkur Örn hefði ekki, með sinni alræmdu skáldagáfu, getað skrifað sjálfum sér verri örlög. Ekki í sínum verstu sjálfsvorkunnarköstum. Því ef það var nokkuð undir himninum sem Eiríkur hataði meira en að vera blankur, einn og ærulaus var það að vera blankur, einn og ærulaus í Reykjavíkurborg, þessari ömurlegu slabbsósa húsaþyrpingu sem blasti nú við honum út um þrjá stóra stofuglugga ...

 

Þegar Eiríkur Örn, aðalpersóna þessarar skáldsögu, tekur að sér kennsluverkefni í ritlist fyrir erlent stórfyrirtæki er því mótmælt með nafnlausri hótun. Hann hefur enda brennt allar brýr að baki sér með skrifum sínum og framkomu. Til að flýja veruleikann sökkvir hann sér í vinnu, söguna af Felix Ibaka frá Arbítreu, þar sem fólk refsar hvert öðru með múrsteinaburði.

HansBlaer_72.jpg

Dömur mínar og lollarar, ég þakka ykkur frá innstu hjartarótum fyrir að setja ykkur í samband en háværar frásagnir af afhroði mínu, hruni, dauða, æruleysi og eignabruna eru sem sagt heldur orðum auknar: Ég lifi, sprikla og dilla mér þótt fjölmiðlar beri á mig ímyndaðar sakir og leyfi *sérfræðingum* (lol) að skálda í eyðurnar af sínu annálaða andríki. Það er ekki liðin heil nótt frá því lögreglan barði að dyrum á Samastað, ekki hálf klukkustund frá því ég var sjálft hrakið á flótta, og sögurnar sem ég hef fyrir kærleika guðanna fengið að lesa um sjálft mig í þeim miðlum sem kalla sig „hefðbundna“ eða jafnvel „krítíska“ (he he) telja sennilega á annan tug. Það er að sönnu gaman að fylgjast með – svona einsog það er gaman að horfa á skordýr sem lent hefur á bakinu sprikla í þeirri von að finna fæturna aftur – en er þetta ekki pínulítið aumkunarvert? Í alvöru.

 

Fyrir 22 klst. 11 mín. síðan. 622 líkar við þessa stöðu. 181 hafa gert athugasemd.

Illska-scaled.jpg

Skriðþungi mannkynssögunnar: Agnes Lukauskaite og Ómar Arnarson kynnast snemma á nístingsköldum sunnudagsmorgni í leigubílaröðinni í Lækjargötu. Þremur árum síðar brennir hann heimili þeirra til grunna, keyrir til Keflavíkur og flýgur úr landi. Sagan hefst raunar löngu fyrr, sumarið 1941, þegar helmingi bæjarbúa litháíska smábæjarins Jurbarkas var slátrað í skógunum í kring. Tveir langafar Agnesar voru þar – annar skaut hinn. Þremur kynslóðum síðar hefur Agnes gert helförina að miðpunkti lífs síns og sú þráhyggja leiðir hana á fund ísfirska nýnasistans og menntamannsins Arnórs.

 

Illska er bók um helförina og bók um ástina, um Ísland og Litháen, um Agnesi sem glatar sjálfri sér á milli þess sem Jón Baldvin viðurkennir sjálfstæði Eystrasaltslandanna og litháískir glæpamenn taka að starfa í Reykjavík, um Agnesi sem veit ekki hvort hún heldur með b-heimsmeisturunum í handbolta eða Bogdan Kowalczyk, um Agnesi sem elskar Ómar sem elskar Agnesi sem elskar Arnór.

Eiríkur Örn Norðdahl er einn framsæknasti höfundur sinnar kynslóðar og hefur vakið mikla athygli fyrir verk sín, bæði ljóð og skáldsögur.

Eitur fyrir byrjendur.jpg

Eitur fyrir byrjendur er önnur skáldsaga Eiríks Arnar Norðdahl (f. 1978), en hann hefur áður gefið út skáldsöguna Hugsjónadruslan og fjölda ljóðabóka og þýðinga.

 

Halldór og Herdís búa saman en hafa ekki kysst svo vitað sé. Þegar Herdís færir inn á heimilið varhugaverða pottaplöntu og kynjafræðinemann Högna tapar Halldór hæfileikanum til að fara úr húsi en fær því meiri áhuga á byrlun eiturs. Eitur fyrir byrjendur er skáldsaga sem fjallar á næman hátt um samlíf ungs fólks.

frankensleikir.jpeg

Þegar Fjólu er sagt að jólasveinarnir séu ekki til hefst hún strax handa við að afsanna þær fáránlegu fréttir. Þá kemur óvænt að góðum notum að stóri bróðir hennar hefur stjórnlausan áhuga á ófreskjum og veit allt sem hægt er að vita um skrímsli Frankensteins. Sprenghlægileg jólasaga eftir verðlaunahöfund sem kemur sífellt á óvart.

Elías Rúni myndlýsti. 

BruinyfirTangagotuna_72pt.jpg

Það er vinnslustopp í rækjunni, gatan sundurgrafin og bærinn alltaf fullur af forvitnum túristum af nýju og nýju skemmtiferðaskipi. Ef ekki væri fyrir nágrannakonuna handan við brúna væri líf Halldórs ansi dapurlegt. En þótt það séu bara níu og hálft skref úr anddyrinu hans að dyrunum hennar er leiðin þangað furðulega flókin.

 

Brúin yfir Tangagötuna er ísfirsk ástarsaga úr samtímanum eftir Eirík Örn Norðdahl. Hann hefur áður sent frá sér skáldsögur, ljóð og matreiðslubók, auk fjölda greina og pistla um bókmenntir og menningarmál. Fyrir skáldsöguna Illsku hlaut hann Íslensku bókmenntaverðlaunin og Menningarverðlaun DV fyrir ljóðabókina Óratorrek. Bækur hans vekja jafnan athygli og hafa verið þýddar á fjölda tungumála.

Heimska1.jpg

Í óskilgreindri framtíð, undir vökulum augum eftirlitssamfélagsins, gera rithöfundarnir og fyrrverandi hjónin Áki og Leníta allt sem þau geta til ganga hvort fram að öðru. Á meðan gengur lífið sinn vanagang, út koma bækur sem ýmist fá verðlaun eða ekki, sólin mjakar sér yfir fjöllin snemma árs og skín á Ísfirðinga, bakkelsislyktina leggur úr Gamla bakaríinu og listnema úr borginni hreiðra um sig í yfirgefinni rækjuverksmiðju. Svo fer rafmagnið að flökta.

 

Heimska er skáldsaga um að sjá allt og sjást alls staðar, um óstjórnlega forvitni mannsins og þörf hans fyrir að vekja athygli, um fánýti bókmennta og lista – og mikilvægi – um líkindi mismunarins, um hégóma, ást og svik. Og síðast en ekki síst um framtíðina.

 

Eiríkur Örn Norðdahl hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir síðustu skáldsögu sína, Illsku. Heimska er fimmta skáldsaga hans en hann er einnig þekktur fyrir greinar sína og ljóð.

Gaeska.jpg

Íhaldsþingmaðurinn Halldór Garðar vaknar og veröldin er allt önnur en þegar hann lagðist til svefns: Það skíðlogar í Esjunni og reykjarmökkinn leggur yfir Reykjavík. Austurvöllur er þéttskipaður mótmælendum hvernig sem lögreglan spúlar þeim burt. Skæðir sandstormar geisa. Konur hrapa ofan af byggingum og fletjast út á gangstéttarhellum. Ástandið fær svo á Halldór að hann læsir sig inni og skrópar í þinginu. En þegar ung marokkósk stúlka biður hann um að hjálpa sér að leysa foreldra sína úr klóm íslensku ríkisstjórnarinnar öðlast líf hans áður óþekktan tilgang.

 

Gæska er ótrúlega hugmyndarík og fyndin skáldsaga um allt sem skorti á Íslandi síðustu ár: Jafnrétti, bræðralag og meðalhóf – og allt hitt sem nóg var af: Græðgi, heimsku og fordóma. Ímyndunarafli Eiríks Arnar Norðdahl halda engin bönd og hér nýtur stílgáfa hans sín til fullnustu.

hugsjonadruslan.jpg

Hvílíkar hetjur! Hvílík saga! Þrándur er kominn um borð í Norrænu að hitta Maggí sem er póliamorískur Texasbúi með master í mannfræði – þau kynntust á Netinu. Nema hvað, á vegi hans verður ein af perlum Norður-Atlantshafsins, hinn engilbjarti Færeyingur Anní, og hann er ekki samur á eftir. Kominn til Kaupmannahafnar á þessi mikli hugsjónamaður úr vöndu að ráða í félagi við skrautlegt lið og góðvininn Billa.

 

Já, söguhetjan rekur sig illilega á að eftir 11. september er allt breytt. Nú leyfist engum að sofa hjá hugmyndum og hugsjónum á víxl nema hann vilji fá á sig druslustimpilinn. Hér ræður hispursleysið ríkjum, jafnt í ríki hugmyndanna sem kynferðisins.

bottom of page